Reglur Manneflis, minningar- og styrktarsjóðs CP félagsins

 1. gr. Heiti og heimili

Sjóðurinn heitir Mannefli, minningar- og styrktarsjóður CP félagsins.

Sjóðurinn er bundinn sjóður innan vébanda CP félagsins. Sjóðurinn stundar ekki atvinnurekstur og eingöngu er heimilt að nýta fjármuni hans í samræmi við tilgang hans samkvæmt 2. gr. þessara reglna og til rekstrar sjóðsins, sbr. 5. gr. reglanna.

Heimili sjóðsins er í Reykjavík.

Starfsstöð sjóðsins er á starfsstöð CP félagsins hverju sinni.

 2. gr. Tilgangur

Tilgangur sjóðsins er að styrkja félagsmenn með CP og/eða aðstandendur þeirra.

Sjóðnum skal varið til þess að styrkja félagsmenn með CP til samfélagsþátttöku, svo sem til náms, lista og íþróttaþátttöku, aðstandendur og fagaðila til að afla sér þekkingar í þágu einstaklinga með CP.

Einnig er heimilt að verja fjármunum sjóðsins til að styrkja verkefni og viðburði á vegum CP félagsins.

 3. gr. Fjármál

Stofnfé var 5.000.000 krónur.

Tekjur sjóðsins eru:

  1. Af sölu minningarkorta.
  2. Framlög til sjóðsins og annað fé, svo sem áheit og gjafir.
  3. Verðbætur og vextir.

Sjóðurinn skal færa sjálfstætt bókhald og ávaxtaður sérstaklega. Fjármunum sjóðsins skal haldið aðgreindum frá öðrum fjármunum CP félagsins. Reikningsár sjóðsins er hið sama og hjá CP félaginu og skulu skoðunarmenn CP félagsins endurskoða ársreikninga sjóðsins.

Stjórn sjóðsins skal á hverjum tíma ávaxta fé sjóðsins með bestu fáanlegum kjörum á tryggilegan hátt. Reikningar skulu lagðir fram árlega, á aðalfundi CP félagsins.

Tryggja ber að rekstur sjóðsins standi undir sér.  Ekki er heimilt að úthluta meiru en svo að sjóðurinn fari undir 4.000.000 króna.

4. gr. Sjóðsstjórn

Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum, þremur stjórnarmönnum skipuðum af stjórn CP félagsins og tveimur öðrum, kosnum á aðalfundi CP félagsins. Þá skulu einnig kosnir tveir varamenn. 

Starfstími stjórnar skal vera tvö ár í senn og skulu kjörnir fulltrúar kosnir á aðalfundi CP félagsins annað hvert ár.  

Heimilt er að stjórnarmenn séu ekki félagsmenn í CP félaginu, æskilegt er að þeir skulu þá búa yfir sérþekkingu á CP og/eða fjármálum.

Stjórn CP félagsins skal skipa fulltrúa stjórnar í stjórn Manneflis á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund félagsins, þar sem kosning í stjórn Manneflis fer fram.

Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum að öðru leyti en því sem ákveðið er í 1. mgr. 4. gr. Stjórnin kýs sér formann á fyrsta fundi eftir aðalfund. Önnur embætti innan stjórnar skulu vera varaformaður, sem jafnframt er ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur.

Stjórn sjóðsins annast umsjón með eignum sjóðsins og fer með daglegan rekstur hans í umboði stjórnar CP félagsins. Stjórn sjóðsins ber að tryggja að fjármálum sjóðsins sé skipað með þeim hætti sem segir í 3. gr. reglna þessara.  Allar ákvarðanir varðandi styrkveitingar skulu bókfærðar.

Stjórn sjóðsins skal árlega leggja fyrir aðalfund CP félagsins skýrslu um starfsemi og reikninga sjóðsins.

 5. gr. Úthlutunarreglur

Stjórn sjóðsins skal setja almennar og skýrar úthlutunarreglur í samræmi við tilgang sjóðsins samkvæmt 2. gr. reglna þessara sem skulu bornar undir stjórn CP félagsins til samþykktar.

Skilyrði fyrir styrkveitingu úr sjóðnum er að viðkomandi sé skuldlaus félagsmaður í CP félaginu.

Hver félagi skal að hámarki fá úthlutað styrk einu sinni á ári.

Úthlutunarreglur skulu vera aðgengilegar félagsmönnum CP félagsins, t.d. gegnum vefsíðu félagsins.

Stjórn sjóðsins tekur á móti umsóknum um styrki, fjallar um umsóknirnar og ákveður úthlutun úr sjóðnum. Beiðni um styrkveitingu skal skilað til stjórnar sjóðsins ásamt viðeigandi gögnum, s.s. fyrir hverja/hvern er sótt um styrk, vegna hvers er sótt um styrk ásamt upplýsingum um verkefnið sem styrkja skal.

Ákvörðun um afgreiðslu umsóknar skal rökstudd með vísan til reglna þessara, úthlutunarreglna sjóðsins eða mats stjórnar. Stjórnin afgreiðir umsóknir og kynnir umsækjendum niðurstöður skriflega.

Styrkumsóknir frá CP félaginu skulu bornar undir aðalfund CP félagsins til samþykktar. 2/3 atkvæða þarf til að styrkumsóknin telst samþykkt.

Afgreiðsla sjóðsstjórnar er endanleg. Gjaldkeri sjóðsins greiðir út styrki inn á bankareikning styrkþega.

Sæki stjórnarmaður í  sjóðnum, fjölskylda hans eða tengdur aðili, um styrk frá sjóðnum, skal stjórnarmaðurinn víkja af fundi þegar fjallað er um umsókn hans og varamaður tekinn inn í hans stað.

 6. gr. Breytingar á reglum um sjóðinn

Starfsreglum sjóðsins verður aðeins breytt á aðalfundi CP félagsins með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.

7. gr. Slit eða sameining

Ákvörðun um slit eða sameiningu sjóðsins má aðeins taka á aðalfundi CP félagsins með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Verði sjóðurinn lagður niður skulu eigur hans renna óskiptar til CP félagsins.

 

Samþykkt á aðalfundi CP félagsins, 28.4.2021.