Að taka fötlun í sátt

Þegar forráðamenn fá staðfest að barnið þeirra sé með CP getur það verið áfall fyrir forráðamenn eða aðra sem tengjast fjölskyldunni með einum eða öðrum hætti. Það að barn fái fötlunargreiningu hefur áhrif á það hvernig horft er til framtíðar og hvað það mun hafa í för með sér og hvaða tækifæri barnið fær á lífsleiðinni.

Það er ekkert rétt eða rangt í því að taka fötlun barnsins í sátt og fólk tekur sér mis langan tíma til þess, jafnvel mis langan tíma innan fjölskyldunnar. Það að taka fötlunina í sátt segir ekki til um að þið séuð að fullu sátt við hlutskipti barnsins, en þið takið barninu eins og það er og það getur orðið til þess að auðveldara er fyrir barnið að taka fötlunina í sátt þegar það eldist og fær aldur til þess að átta sig. Það er gott að hafa í huga að flest börn með CP fá greiningu snemma á lífsleiðinni og þekkja því lítið eða ekkert annað en fötlunina svo það er til lengri tíma litið það sem þau miða við en forráðamenn og aðrir í umhverfinu eru líklegri til þess að miða barnið við ófatlaða jafnaldra strax frá upphafi því það er oft það sem fólk þekkir til frekar en fötlunin og áhrif hennar.

Það getur verið mikilvægur þáttur í því að taka fötlunina í sátt að ræða við aðra forráðamenn í svipaðri stöðu eða eldri einstaklinga með CP. Það reynist stundum forráðamönnum þörf á því að taka ólík tímabil í lífi barnsins í sátt byggt út frá þeim væntingum sem aldurshópur barnsins ætti að uppfylla. Gott að muna að allir geta eitthvað en enginn getur allt.

Systkini

Fyrir systkini CP barna getur verið erfitt að skilja hvers vegna CP barn fær sérmeðferð eða aðstoð við hluti sem aðrir í fjölskyldunni geta gert sjálfir. Það getur verið gagnlegt að útskýra fyrir þeim að enginn getur allt en allir geta eitthvað. Allir þurfa aðstoð í lífinu á einhverjum tímapunkti og sumir þurfa meiri aðstoð en aðrir.

Mikilvægt er að veita börnum athygli sundur og saman sé það möguleiki til þess að þau fái öll tækifæri til þess að njóta sín, óháð því hver þjónustuþörf þeirra er. Hins vegar þurfa forráðamenn að hafa í huga að systkini geta aðstoðað en eru fyrst og fremst börn og systkini CP barnana en ekki aðstoðarmenn.

Umhyggja, félag langveikra barna, sem CP félagið er aðili að, stendur reglulega fyrir námskeiðum sem sérstaklega eru ætluð systkinum fatlaðra barna. Þá stendur Systkinasmiðjan, fyrir námskeiðum fyrir systkini barna með sérþarfir. Á slíkum námskeiðum gefst systkinum fatlaðra barna tækifæri til að hitta önnur börn í svipuðum sporum.