Ólíkar gerðir CP
CP má flokka gróflega í nokkra flokka.
Sú hlið eða líkamspartur sem fötlunin nær til er gjarnan minni, styttri og rýrari en sá sem fötlunin nær ekki til. Mikilvægt er að hafa í huga að þó það sé hægt að flokka CP nokkurn veginn eftir einkennum þarf að hafa í huga að fötlunin hefur ólík áhrif á einstaklinga með CP, þó svo að þeir tilheyri sama flokki.
Helftarlömun (hemiplegia):
Er þegar fötlunin nær að mestu til annarrar hliðar líkamans (handlegg og fótlegg öðru megin). Einkennin eru gjarnan meiri í handlegg en fótlegg.
Tvenndarlömun (diplegia):
Er þegar fötlunin nær til allra útlima en er meiri í fótleggjum. Það verður til þess að fólk með CP tvenndarlömun hefur betri stjórn á efri hluta líkamans en fótleggjum. Algengt er að fyrirburar falli í þennan flokk.
Fjórlömun (quadriplegia):
Er þegar fötlunin nær yfir alla útlimi líkamans, bol, háls. Einnig nær það til munnsvæðis, tungu og koks. Áhrif fötlunarinnar verða til þess að viðkomandi þarf aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs.
Slingurlömun (ataxísk lömun):
Í þessari gerð fötlunar eru einstaklingar með slakt jafnvægi og fremur óstöðugt göngulag. Einstaklingar sem tilheyra þessum flokki geta átt í erfiðleikum með að framkvæma hraðar eða nákvæmar hreyfingar m.a. skrifa eða hneppa tölum.
Ranghreyfingarlömun (dyskínetísk lömun):
Í þessari gerð fötlunar sem er þó ekki algeng eru ósjálfráða hreyfingar algengar í útlimum. Í sumum tilfellum ná einkennin til vöðva í andliti og tungu sem hefur áhrif á tal fólks. Þessi gerð greinist seinna á ævinni heldur en CP almennt.
Blandaður flokkur:
Það er algengt að einstaklingar með CP hafi fleiri einkenni sem tilheyra þá meira en einum flokki sem upp er talinn. Algengt er að þeir sem tilheyra blönduðum flokki séu með spastísk einkenni í bland við ranghreyfingarfötlun.