Sérhæfð þjónusta og meðferðir

Sjúkraþjálfun: Fyrirbyggir og dregur úr seinni tíma afleiðingum fötlunar og eflir einstaklinginn til hreyfingar. Sjúkraþjálfar efla færni einstaklinga við daglegar athafnir með því að styrkja, liðka og viðhalda þeirri færni sem er til staðar með úthald og vöðvastyrk í huga.

Iðjuþjálfun: Iðjuþjálfi metur færni við daglegar athafnir og iðju sem skiptir hvern og einn máli. Meðal þess sem iðjuþjálfar geta aðstoðað með er að aðlaga umhverfið og aðferðir við að sinna eigin umhirðu, sinna áhugamálum, mæta til vinnu, skóla eða annað sem fólk tekur sér fyrir hendur.

Þroskaþjálfun: Þroskaþjálfar stuðla að auknu sjálfstæði í leik, starfi og félagslegum samskiptum með það að markmiði að allir fài tækifæri á eigin forsendum. Þroskaþjálfar starfa oft á leiksskólum og öðrum menntastigum.

Bæklunarlæknir: Skoðun og mat hjá bæklunarlækni getur verið gagnlegt til þess að taka afstöðu til hjálpartækja, meta þörf á aðgerðum eða annarri meðferð til að auka lífsgæði. Allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar í samráði og samvinnu við annað fagfólk, einstaklinginn sjálfan og fjölskyldu ef við á. Algengar aðgerðir á meðal einstaklinga með CP: aðgerðir á hásinum, mjöðmum og hnésbótum

Sálfræðingar: Koma að málum fólks með CP t.d. vegna hegðunar- og tilfinningavanda. Getur einnig veitt aðstandendum stuðning og ráðleggingar.

Félagsráðgjafi: nýtist fólki með CP og fjölskyldum þeirra til þess að upplýsa um úrræði og réttindi í velferðarkerfinu og annar staðar sem við kemur barni, fjölskyldum eða fólki með CP almennt.

Stoðtækjafræðingur: Kemur að greiningu, vali og útfærslu á hjálpartækjum sem stuðla að auknum lífsgæðum fólks með CP.

Sértækar þjálfunaraðferðir

Sjúkraþjálfun á hestbaki:
Þegar sjúkraþjálfun á hestbaki er notuð, notar meðferðaraðilinn hitann frá hestinum og hreyfingar hans. Gangur hestsins hefur yfirfærslu áhrif á einstakling með CP. Þannig má stuðla að  bættu jafnvægi, draga úr spennu í spastískum vöðvum, styrkja alla vöðva líkamans almennt, bæta og rétta af  göngulagið og samhæfingu einstaklinga með CP. Auk þess er hægt að bæta skynjunar tengdar hreyfingar svo eitthvað sé nefnt.

Sjúkraþjálfari sem þjálfar með hestamennsku velur þann hest sem hentar færnistigi einstaklings best, sem og önnur nauðsynleg hjálpartæki til þess að ýta undir að fólk njóti sín sem best á hestbaki. Það sem þarf meðal annars að hafa í huga er að hesturinn þarf að vera af réttri hæð,  breidd og göngulag hans og baksveigja að henta einstaklingnum til að meðferðin skili sem bestum árangri.

Iðjuþjálfun með aðstoð hunda:
Er nýlega farið að hasla sér völl á íslandi í meðferðarskyni. Markmiðið með því að hundur sé hluti af iðjuþjálfuninni með því að vera þátttakandi þar sem barn með CP er að kasta til hundsins, búa til þrautabraut þar sem þarf að skipuleggja hvað er gert, hvenær og hvernig og þá er markmiðið að það sé fyrir hundinn en ekki þjálfarann eða eitthvað blað sem barnið sér ekki aftur.  Hundurinn getur einnig verið viðstaddur í rýminu og þannig skapað öryggi og einbeitingu hjá barni, án þess að gera nokkuð annað.

Aðrar þjálfunaraðferðir:
Til eru margar aðrar þjálfunaraðferðir sem nýtast fólki með CP, svo sem nudd, skynhreyfiþjálfun, nálastungur, þjálfun eða slökun í heitum potti, talþjálfun, jóga, trimform, Mitii, svæðanudd (óhefðbundin meðferð) og tónlistarmeðferð.