Lög CP félagsins

1.grein.

Félagið heitir CP félagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2.grein. 

Markmið CP f‘élagsins er að beita sér í hvívetna fyrir hagsmunum hreyfihamlaðra einstaklinga sem greinst hafa með Cerebral Palsy (CP). Félagið mun standa fyrir söfnun upplýsinga um CP og miðlun þeirra. Ennfremur mun félagið efla samstarf fagfólks og aðstandanda og stuðla að faglegri umræðu um málefni, úrræði og nýjungar sem tengjast CP.

3.grein. 

Félagið er öllum opið. Inngöngubeiðni skal komið á framfæri við stjórn félagsins. Í henni skal koma fram nafn, kennitala og heimilisfang hins nýja félaga.

4.grein. 

Úrsögn úr félaginu skal á sama hátt tilkynna formlega til stjórnar félagsins. Þá telst sá félagi sem ekki stendur í skilum með félagsgjöld til félagsins, sjálfkrafa hættur í félaginu.

5.grein. 

Árgjald til félagsins skal ákveðið á aðalfundi og endurskoðað ár hvert. Skal það innheimt með gíróseðli, eða á annan ótvíræðan hátt, eigi síðar en í september á viðkomandi tekjuári.

6.grein. 

Félagið starfar í einu lagi fyrir allt landið og skal árlegur aðalfundur þess boðaður öllum félögum skriflega, með bréfi eða rafrænum hætti í samræmi við 8. grein laga þessara. Aukafundi er heimilt að boða fyrir smærri svæði eftir hentugleika , með þeim aðferðum sem henta þykja hverju sinni, þó þannig að þess sé freistað að ná til allra þeirra félaga sem á viðkomandi svæði búa.

Allir félagar hafa málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á félagsfundum.

7.grein. 

Öllum félögum skal tilkynnt um fræðslufundi, fyrirlestra og aðra fundi á vegum félagsins skriflega, sbr. 6. grein. Einnig skal birt fréttatilkynning eða auglýsing á heimasíðu félagsins svo náist til sem flestra.

8.grein. 

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í málefnum CP félagsins. Stjórn skal boða skriflega til aðalfundar, og skal fundarboð sent með að minnsta kosti 15 daga fyrirvara. Skal aðalfundur haldinn í síðasta lagi 30. apríl ár hvert.

Verkefni aðalfundar skulu meðal annars vera:

Skýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár.
Afgreiðsla reikninga síðasta reikningsárs.
Lagabreytingar, ef um það koma fram skriflegar tillögur sem skilað er til stjórnarmanns minnst 7 dögum fyrir aðalfund.  Kynna skal lagabreytingartillögur á heimasíðu félagsins, www.cp.is, minnst 5 dögum fyrir aðalfund.

Lögð drög að starfi félagsins.
Ákvörðun árgjalds félagsmanna fyrir næsta ár.
Kosning stjórnar og skoðunarmanns reikninga.
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á félagsfundum, nema um lagabreytingu sé að ræða samkvæmt 11. grein.

9.grein. 

Stjórn CP félagsins skipa sjö félagsmenn, formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og þrír meðstjórnendur. Formaður skal kosinn á aðalfundi til tveggja ára í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, þrír á hverjum aðalfundi. Kosið skal eftir tilnefningum og skal kosning vera skrifleg ef tilnefningar um fleiri menn en þeim embættum nemur sem kosið er til hverju sinni. Fyrst skal formaður kosinn og síðan aðrir stjórnarmenn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Jafnframt skal kjósa einn skoðunarmann reikninga á aðalfundi sem yfirfer ársreikning félagsins.

Æskilegt er að minnsta kosti tveir fulltrúar í stjórn CP félagsins séu einstaklingar sem greinst hafa með CP.

10.grein. 

Verkefni stjórnar skulu vera:

Að stýra málefnum CP félagsins á milli aðalfunda.
Að vera málsvari félagsins út á við.
Að standa fyrir fræðslu- og stuðningsfundum, auk fyrirlestra.
Að innheimta árgjöld félaga.
Að afla framlaga úr sjóðum opinberra aðila, stofnana eða fyrirtækja til þeirra verkefna sem félagið hyggst beita sér fyrir hverju sinni
Að varðveita sjóði félagsins og leggja fram reikninga fyrir aðalfund. Gjaldkeri félagsins skal afhenda reikninga frá stjórn til skoðunarmanns reikninga eigi síðar en 14 dögum fyrir auglýstan aðalfund.

Starrfstímabil stjórnar er á milli aðalfunda.

Starfstímabil félagsins er almanaksárið 1. janúar til 31. desember ár hvert.

Að halda stjórnarfundi svo oft sem stjórn ákveður, og þurfa þykir. Hafi 3 mánuðir liðið frá síðasta stjórnarfundi, er formanni skylt að boða til fundar ef einn af stjórnarmönnum krefst þess.
Dagleg umsjón félagsins er í höndum formanns stjórnar sem jafnframt er prókúruhafi ásamt gjaldkera. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

11.grein. 

Lögum þessum má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi 28. apríl 2021 í Reykjavík.