CP Norden

CP Norden er samstarfsvettvangur CP-félaganna í Danmörku, á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum. Markmið samstarfsins er að miðla reynslu á sviði CP hreyfihömlunar, breiða út þekkingu og þróa í sameiningu nýja starfsemi á heilbrigðis-, samfélags- og upplýsingasviði sem gagnast fólki með CP – bæði börnum og fullorðnum – og fjölskyldum þess.

Megnið af samskiptunum fer fram á netinu, en einnig er skipulagður sameiginlegur Norðurlandafundur einu sinni á ári sem þátttökulöndin skiptast á að halda.

Fjárhagur
CP Norden hefur ekki sameiginlegan fjárhag. CP-samtök þátttökulandanna greiða hver um sig fyrir þátttöku í starfseminni og skiptast á að sinna umsýslu með netsamskiptunum. Norræna velferðarmiðstöðin (Nordens Velfärdscenter) hefur nokkrum sinnum styrkt samstarfið þegar sótt hefur verið um það.

Ólík málefni
Á undanförnum árum hefur CP Norden tekið fyrir fjölda spennandi málefna. Þannig var mikil áhersla lögð á æskulýðsstarf á Norðurlöndunum á fundinum 2014 í Stokkhólmi. Árið 2015 héldu færeysku CP-samtökin fundinn með þemað: Mitt líf – mín ábyrgð. Á fundinum í Ósló árið 2016 var ákveðið að ræða gráa svæðið þar sem fólk með vægari heilalömun upplifir sig. Sú umræða fór fram undir þemanu: Ósýnileg heilalömun – þegar skert færni er lítt sýnileg eða verður aðeins vart við og við. Árið 2017 var fundurinn haldinn á Íslandi og á þeim tveimur dögum lögðu þátttakendurnir áherslu á hina erfiðu breytingu úr barni í fullorðinn einstakling.

Árið 2018 hélt Spastikerforeningen Norðurlandafundinn, sem fram fór í Kaupmannahöfn 12.–13. apríl. Yfirskrift fundarins var: „Heilbrigðismeðferð fyrir fólk með heilalömun“. Á fundinum í Kaupmannahöfn notuðu þátttökulöndin einnig tækifærið til að líta yfir farinn veg og skoða árangur af samstarfi CP Norden fyrstu níu árin.

Áhersla á vitsmunalega sviðið
Frá því að norrænt samstarf var endurvakið árið 2010 hefur athyglinni sérstaklega verið beint að þekkingarmiðlun hvað varðar vitsmunalega sviðið. Með hliðsjón af CPEF (CP-eftirfylgni) er þannig unnið ötullega að því að koma taugasálfræðilegum rannsóknum inn í almenna heilsuvernd á sama hátt og læknisskoðanir, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun.
Samstarf við lýsingu og útfærslu taugafræðilegu rannsóknanna, og að gera grein fyrir þýðingu þeirra, hefur fyrst og fremst verið á hendi sænskra, norskra og danskra sálfræðinga og taugasálfræðinga. Starfið hefur hlotið mikla viðurkenningu og vonir standa til að vitsmunalegi þátturinn verði innan fárra ára orðinn hluti af CPEF-áætluninni.

Norræn CP félög