Hjálpartæki

Hjálpartæki eru notuð af börnum og fullorðnum með CP með það að markmiði að draga úr afleiðingum skerðingarinnar og koma til móts við þá færni sem er til staðar og stuðla að aukinni þátttöku í daglegu lífi.

Hjálpartæki eru margskonar til þess að koma til móts við hvern og einn, sumir nýta sér hjólastóla, aðrir göngugrindur og enn aðrir spelkur svo eitthvað sé nefnt. Fólk getur einnig átt nokkur eða mörg hjálpartæki og notað þau við ólík tilefni.

Hjálpartækið sem sótt er um þarf að mæta þörfum hvers og eins. Sjúkra- og iðjuþjálfar eru þær fagstéttir sem gjarnan koma að því að sækja um viðeigandi hjálpartæki með aðstoð læknis en það þarf að fylgja með læknisvottorð um aðstæður þess sem hjálpartækið er ætlað.

Nánari upplýsingar um hjálpartæki má nálgast hjá fyrirtækjum á borð við Fastus, Stoð, Össur, tal- og heyrnarmiðstöðin, Sjúkratryggingar.

Stuðningur frá sveitarfélagi

Sveitarfélög bjóða upp á margvíslega þjónustu fyrir fatlað fólk, t.d.

  • Ráðgjöf og stuðning við fatlað fólk og foreldra fatlaðra barna.
  • Þjónustu á heimilum.
  • Hæfingu.
  • Starfsþjálfun.
  • Verndaða vinnu.
  • Stuðningsfjölskyldur fyrir fötluð börn.
  • Liðveislu.
  • Akstursþjónustu.

Fyrir upplýsingar um þjónustu hvers sveitarfélags er best að hafa samband við það sveitarfélag sem þið búið í.

Liðveisla

Liðveisla hefur það að markmiði að draga úr eða koma í veg fyrir félagslega einangrun og veita fólki með fötlun jöfn tækifæri til að njóta félagslífs og menningarviðburða.

Frekari liðveisla er viðbót við liðveislu sem veitt er fólki með hreyfihömlun. Frekari liðveisla nær yfir frekari aðstoð til viðbótar við heimilishjálp og félaglega liðveislu til þess að geta sinnt heimilishaldi og öðru í daglegu lífi sem skiptir fólk máli.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í þjónustumiðstöðvum sveitarfélaga.

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA)

Notendastýrð persónulega aðstoð (NPA) er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum það býr. Fatlað fólk stýrir því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvað aðstoð er veitt við, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana. Markmið NPA er að fatlað fólk geti lifað lífi sínu og haft sömu möguleika og ófatlað fólk. Einnig að þau hafi hámarks stjórn á því að móta sinn eiginn lífsstíl. Nánari upplýsingar um NPA er að finna hjá NPA miðstöðinni.