Fylgikvillar CP
Einstaklingar með CP hreyfihömlun geta lifað með ýmsum fylgikvillum sem oft fylgja fötluninni. Það er mjög einstaklingsbundið hvort og hvernig birtingarmynd CP og fylgikvilla kemur fram hjá hverjum og einum.
Hér eru helstu fylgikvillar taldir upp.
Tilfinningavandi:
Tilfinningavandi getur fylgt CP, rétt eins og getur komið fram hjá öðrum börnum. Dæmi um birtingarmyndir slíks vanda er öfgafull (allt eða ekkert) hugsun og fullyrðingar, alhæfingar um að ef eitthvað gengur ekki að óskum muni ekkert gera það. Einnig getur það orðið til þess að einstaklingar með CP tengi vanlíðan sína við það að það sem þau taki sér fyrir hendur gangi ekki upp. Algengt er að börn og fullorðnir með CP setji óraunhæfar kröfur á sjálfan sig, í aðstæðum sem þau hafa illa eða enga stjórn á. Auk þess að draga ályktanir í aðstæðum án þess að hafa rök fyrir því. Gjarnan getur verið auðveldara að leggja áherslu á það sem gengur illa en draga fram það sem gengur vel, því oft upplifir fólk með CP að því sé að ganga verr en því er að ganga í raun. Sérstaklega þegar samanburður er gerður á einstakling með CP og einstakling sem ekki er með CP, hvort sem samanburðurinn er gerður af einstakling með CP eða ekki. Ólíkt er á milli einstaklinga hvort tilfinningavandi er til staðar eða í hversu miklu magni. Vandinn getur gert vart við sig á mismunandi tímabilum eða aðstæðum í lífi fólks.
Sjón og heyrn:
Skert sjón og eða heyrn er algeng á meðal fólks með CP, það orsakast af því að samhæfing vöðva í augum og eða eyrum er ekki næg til þess að vinna vel saman. Það getur orðið til þess að fólk verður tileygt eða verður fyrir sjónskerðingu sem hefur áhrif á aðra þætti tengda sjóninni t.d. fjarlægðarskyn eða náttblinda.
Nánari upplýsingar um sjónskerðingu má nálgast hjá Blindrafélaginu og upplýsingar um heyrnarskerðingu má nálgast hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Fjóla, félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Skynúrvinnsla og skynjun:
Hreyfihömlun getur orðið til þess að fólk skynjar snertingu og sársauka á ólíkan hátt, sérstaklega þegar horft er til þess líkamshluta sem lömunin nær til. Einhverjir upplifa erfiðleika eða óþægindi við ákveðið bragð, áferð, hitastig eða hluti. Skynúrvinnsluvandinn getur einnig náð til þess að vera lítið meðvitaður um þann líkamspart sem lömunin nær til og gefa því lítinn gaum ef eitthvað er óhefðbundið eða óeðlilegt.
Krampar og flogaveiki:
Krampar eru töluvert algengir meðal fólks með CP. Þeir eiga sér stað vegna truflunar á rafboða starfsemi í heila.
Flogaveiki á þó við þegar endurteknir krampar eiga sér stað án beinnar ertingar. Einkenni flogaveiki eru röskun á hreyfingu, skynjun, atferli, tilfinningu og eða meðvitund. Nánari upplýsingar um flogaveiki má nálgast hjá félagi flogaveikra (LAUF).
Röskun á vexti:
Skemmdir á heilastöðvum sem stýra vexti og þroska einstaklinga með CP geta haft í för með sér að fólk finni fyrir óþægindum eins og vélindabakflæði eða hægðatregðu. Einnig er ákveðinn hópur fólks með CP sem á erfitt með að stýra vöðvum í koki og munni sem veldur því að erfitt reynist að kyngja. Það getur gjarnan leitt til næringavandamála.
Þvagleki:
Þvagleki er algengur fylgikvilli CP. Ástæða þess er helst sú það reynist erfitt að stýra þeim vöðvum sem loka þvagblöðrunni. Óþægindi sem geta gert vart við sig vegna þess er einstaklingar missa þvag á nótt sem degi, gjarnan í kjölfar áreynslu.
Þroskahömlun/skerðing/Vitræn skerðing:
Þeir einstaklingar sem greinast með CP og þroskahömlun geta átt erfiðara með að tileinka sér aðferðir til náms, einbeiting, hugsun eða málnotkun. Auk þess sem greind flokkast undir meðallagi. Þroskahömlun er algengust hjá fólki með CP í flokki spastískar fjórlömunar. Áætlað hlutfall þeirra sem greinast er um 40 -50 %. Nánari upplýsingar um þroskaskerðingu má nálgast hjá Þroskahjálp.