Skólakerfið
Allir eiga rétt á menntun við hæfi óháð aldri. Það að vera í skóla getur leitt til allskonar áskorana og hindrana hvort sem fólk er með fötlun eða ekki. Það getur þó verið sérstaklega mikilvægt fyrir fólk með CP að huga að aðgengi hvort sem það er að byggingunum þar sem námið fer fram eða aðgengi að námsefninu, það sé skýrt og auðlesið sem dæmi.
Algengt en ekki algilt er að fólk með CP sé með námserfiðleika.(Rétt eins og aðrir einstaklingar Námserfiðleikar geta verið ólíkir og mismiklir eins og fólk er fjölbreytt.
Það getur verið gagnlegt að leita til námsráðgjafa eða kennara til þess að vita hvaða lausnir er hægt að nýta til þess að bæta aðgengi að námi eða gera það bærilegra með einhverjum hætti sé þess þörf. Dæmi um leiðir sem hægt er að fara er að nota talgervil, Hljóðbókasafn Íslands eða aðrar hljóðbækur, tölvu við skrif, aðstoðarmann við skrif eða úrvinnslu, upptökutæki, lituð blöð, stærra letur, skrifstofubúnaður sem hentar viðkomandi, lengri tími til að skila af verkefnum eða prófum eða annað sem nemandi veit að hentar honum.
Þátttaka í skólastarfi er mikilvæg sama á hvaða aldri nemandi er. Það er stór hluti af því að vera í skóla að upplifa að maður tilheyri hópi nemenda hvort sem það er innan skólastofunar, utan hennar þar sem þátttaka byggist á félagslegum samskiptum og þátttöku eða í ferðalögum á vegum skólans. Ferðalög á skólatíma geta verið alls konar og eru kennarar og aðrir skipuleggjendur mis duglegir að hafa í huga þarfir allra nemenda, sérstaklega ef þeir eru ekki vanir að fatlaðir nemendur séu innan skólans.
Leikskóli
Leikskóli er tækifæri barna til þess að læra á lífið í gegnum leik með jafnöldrum sínum. Sum börn þurfa meiri stuðning en önnur börn í öllum daglegum athöfnum á meðan önnur sækja í stuðning við ákveðnar athafnir sem reynist þeim erfiðar. Hægt er að velja um hverfisleikskóla sem er næst heimili barnsins en það er einnig hægt að sækja um leikskóla með aukin tengsl við fagfólk og fagþekkingu sem nýtist í störfum með hreyfihömluðum börnum til þess að mæta þörfum þeirra. Mikilvægt er að muna að leyfa barninu að njóta þess að vera það sjálft, læra viðeigandi hluti á sama tíma læra af því sem gengur ekki upp líkt og önnur börn. Auk þess er þörf á því að allir í umhverfi barnsins horfi til þess að þátttaka skiptir höfuðmáli í lífi barns á leikskólaárunum óháð því hvort barnið taki þàtt með beinum hætti eða með aðstoð en upplifi sig sem þátttakanda í leikskólastarfinu.
Grunnskóli
Þegar nám hefst í grunnskóla getur það reynst mikið stökk úr leikskóla umhverfinu þar sem stuðningur og aðhald breytist vegna áherslubreytinga á nýju skólastigi og þess að gjarnan er krafist þess af börnum að öðlast sjálfstæði. Það getur þó verið þörf á því að barn sé með stuðning inn í bekk eða við aðrar athafnir innan skólans. Stuðningurinn getur verið margskonar og þarf að mæta þörfum hvers og eins óháð því hver þær eru. Það hefur verið hefð fyrir því að stuðningurinn sé veittur utan bekkjarins með því að taka barn út úr bekknum, það hefur þó dregið úr því og stuðningurinn gjarnan frekar veittur inn í bekk þar sem aukin vitund um mikilvægi félagslegrar þátttöku og tengsla hefur haft áhrif.
Þegar valin er skóli fyrir barn þarf að kynna sér hvað skólar hafa upp á að bjóða og hversu sveigjanlegir þeir eru, hvernig þjónustu er hægt að veita innan skólans eða annarstaðar í samráði við skólann eða á skólatíma t.d. þjálfun eins og iðju- eða sjúkraþjálfun, þjónusta talmeina- og sálfræðinga eða annað sem þörf er á. Hvort fylgdarmaður komi með barni úr skólanum í þjálfun eða meðferð eða hvort það sé í höndum foreldra að koma börnum þangað í hvert sinn.
Sérskólar geta verið kostur sé þjónustuþörf barnanna mikið og sérþekking nauðsynleg. Klettaskóli í Reykjavík hefur m.a. sinnt menntun og þjónustu barna með CP síðastliðin ár. Hvort sem barnið hefur byrjað þar í námi við 6 ára aldur eða fært sig úr hverfisskólanum sínum yfir í Klettaskóla þegar bil aukast milli einstaklings með CP og jafnaldra m.a. út frá færni.
Menntaskóli
Þegar einstaklingur byrjar í menntaskóla hefur hann meiri stjórn á því hvað og hvernig hann vill læra, ef miðað er við fyrri skólastig. Hægt er að velja um bekkjakerfi, áfangakerfi eða sérnámsbraut, bóklegt nám, verklegt nám, staðarnám eða fjarnám. Stuðning frá kennurum, námsveri eða námsráðgjöfum eftir þörfum hvers og eins
Háskóli
Háskólanám er fjölbreytt en eins og staðan er í dag er aðgengi að námi mjög afmarkað ef fólk er ekki með fulla getu til þess að sinna bóklegunámi eða starfsnámi en það er vonandi til bóta með meiri þekkingu í samfélaginu, breytinga og aðlögunar innan háskólasamfélagsins í heild og fleira fatlaðs fólks innan háskóla landsins.
Mikilvægt er að sækjast eftir námi sem byggir á áhugasviði og hæfni hvers og eins. Ef þörf er á aðlögun, umræðum tengd náminu eða annað sem viðkemur háskólanáminu er gott að tala við kennara námskeiða, verkefnastjóra námsviðs eða námsráðgjafa og leita leiða til þess að gera námið ánægjulegt.