Aðalfundur CP félagsins var haldinn fimmtudaginn 28. apríl 2022. Alls mættu um 15 manns á fundinn, flestir á staðnum en einnig nokkrir gegnum netið. Kosning fór fram rafrænt og því gátu allir tekið þátt, þeir sem voru í salnum en einnig þeir sem heima sátu.
Fundurinn gekk mjög vel. Haukur fluti skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár. Þar stóð upp úr útgáfa fræðslumyndbands um CP hreyfihömlun, skemmtun fyrir félagsmenn í tilefni alþjóðlega CP dagsins, sem haldinn er 6. október ár hvert, jólasveinaheimsóknir til félagsmanna, uppfærsla á merki félagsins og ný vefsíða. Auk þess kynnti Kolbrún, formaður Manneflis, tillögu að nýjum úthlutunarreglum sjóðsins ásamt umsóknareyðublaði, sem brátt verður gert aðgengilegt á vefnum. Ársreikningur fyrir árið 2021 var samþykktur ásamt árgjaldi, sem verður óbreytt 3.000 kr. á fjölskyldu.
Þá var kosin ný stjórn CP félagsins. Haukur var endurkjörinn formaður og þrír stjórnarmenn náðu kjöri. Kristín ákvað að hætta í stjórninni og kemur Linda Sólrún Jóhannsdóttir ný inn í stjórnina. Daníel og Lilja gáfu áfram kost á sér og sitja þau því í tvö ár til viðbótar. Við þökkum Kristínu kærlega fyrir hennar starf undanfarin tvö ár og óskum henni velfarnaðar í sínum verkefnum.
Mikil og góð umræða var um starf félagsins á næsta starfsári og verður hún gott veganesti fyrir stjórnina inn í starfsárið.
Fundargerð aðalfundar verður fljótlega gerð aðgengileg á vefnum.